Sendiráð Íslands



Yüklə 80,5 Kb.
tarix12.10.2018
ölçüsü80,5 Kb.
#73851

Sendiráð Íslands

Ottawa

Apríl 2005

Perú
Almennt

Íbúar Perú eru 28 milljónir manna. Um 45% landsmanna eru indíánar en 37% er blanda af innflytjendum frá Evrópu og fólki af indíánaættbálkum og kallast mestizo. Um 15% eru af evrópskum uppruna.


Spænska og quechua eru opinber tungumál Perú. Um 90% íbúa tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni. Meðallífslíkur í Perú eru 70 ár. Um 54% íbúa lifir undir fátæktarmörkum og 89% eru læsir.
Perú er þriðja stærsta ríki Suður Ameríku og er 1.285.220 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg landsins er Lima. Þar búa tæpar sjö milljónir manna. Perú er rómað fyrir náttúrufegurð og fjölbreytt landslag, auk menningararfleifðar Inka sem er auðséð m.a. í hinni fornu höfuðborg Cuzco og týndu borg þeirra Machu Picchu. Gjaldmiðill landsins er nuevo sol (apríl 2005:1 USD = 3,25 PEN).
Í Perú er fulltrúalýðræði og er stjórnarfar landsins byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald.
Forseti lýðveldisins leiðir framkvæmdavaldið og er einnig þjóðhöfðingi landsins. Kjörtímabil forsetans er fimm ár og samkvæmt breytingum á stjórnarskránni frá 1993 má hann bjóða sig fram til endurkjörs einu sinni. Forsetinn ákveður fjölda og hlutverk ráðuneyta og skipar ráðherra þeirra. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, en í því sitja 120 þingmenn í einni þingdeild. Þingmenn eru kjörnir til fimm ára í senn. Síðustu kosningar fóru fram árið 2001.
Elstu mannvistarleifar í Perú eru frá því 10.000 f. Kr. Ýmsir indíánaættbálkar bjuggu í Perú, en þekktastir eru Inkarnir sem mynduðu borgríkið Cuzco á tólftu öld undir stjórn Manco Capac. Árið 1438 hófu Inkarnir að breiða úr sér og þegar Spánverjar undir stjórn Francisco Pizarro (1475-1541) réðust inn í Perú árið 1532 var landið miðstöð heimsveldis þeirra sem náði frá norður Ekvador og Kólumbíu til Chile, Bolivíu og Argentínu.
Þrátt fyrir að Pizarro hafi verið ráðinn af dögum af öðrum landvinningamönnum, tókst Spánverjum að halda völdum í landinu og var síðasti foringi Inkanna Túpac Amaru tekinn af lífi árið 1572. Þar með leið heimsveldi þeirra undir lok og á 45 árum fækkaði Inkum á svæðinu úr 12 milljónum í eina milljón.
Í kjölfarið stjórnuðu Spánverjar landinu í 300 ár, þar til José de San Martin hershöfðingi (1778-1850) lýsti yfir sjálfstæði Perú 28. júlí 1821. Þegar her Simon Bolivar (1783-1830) og Antonio José de Sucre sigruðu spænska herinn í bardaga við Pichincha árið 1822 liðu yfirráð Spánverja yfir Suður Ameríku undir lok, þó þeir héldu ítökum í Perú til ársins 1824.

Stjórnmálasaga Perú sem sjálfstæðs ríkis hefur einkennst af uppreisnum, valdaránum, herstjórnum og einræði.



Stjórnmál

Einræðis- og herstjórnir skiptust á völdum í Perú á tuttugustu öldinni. Síðasta herstjórnin sem réði ríkjum í landinu var stjórn Juan Velasco Alvarado hershöfðingja sem velti lýðræðislega kjörnum forseta Fernando Belaúnde Terry úr sessi árið 1968. Þegar lýðræðislegri stjórn var komið aftur á árið 1979 náði Belaúnde aftur kjöri í forsetakosningum. Efnahagsleg óreiða í kjölfar herstjórnarinnar og náttúruhamfarir leiddu til verðbólgu, efnahagsvandræða og hryðjuverka sem drógu verulega úr vinsældum forsetans.


Árið 1985 tók Alan García við forsætisembættinu af Belaúnde á friðsamlegan máta, sem hafði ekki gerst í landinu í 40 ár. Óstjórn hins nýja forseta leiddi hins vegar til óðaverðbólgu í landinu á árunum 1988 og 1990. Árið 1990 tók hinn japanskættaði Alberto Fujimori við embættinu og náði hann tökum á verðbólgunni á skömmum tíma með mjög róttækum aðferðum. Hann leysti upp þingið, endurskoðaði stjórnarskrána, boðaði til nýrra þingkosninga og kom á ýmsum efnahagsumbótum, m.a. með takmörkun ríkisafskipta og einkavæðingu ríkisfyrirtækja í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann.
Fujimori forseti náði á valdatíma sínum að draga talsvert úr styrk hryðjuverkahópa. Einn helsti uppreisnarhópurinn var Sendero Luminoso (Shining Path, SL) undir stjórn Abimael Guzman, sem hafði það að markmiði að koma á kommúnistaríki í Perú og vílaði sér ekki við að nota ofbeldi til að ná því takmarki sínu. Á árunum 1980-2000 voru 69.000 manns (aðallega indíánar) myrtir í átökum hópa uppreisnarmanna og stjórnvalda og hefur SL verið kennt um 54% þeirra morða. Árið 1992 var Guzman handtekinn og dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar. Í kjölfarið var allur vindur úr uppreisnarhópnum og yfir 6.000 uppreisnarmenn gáfu sig fram við stjórnvöld gegn sakaruppgjöf.
Framboð og sigur Fujimori í forsetakosningunum í júní 2000, þar sem hann vann í þriðja sinn, olli ólgu í landinu. Einræðistilburðir hans og ólýðræðisleg stjórn höfðu þegar skapað honum talsverðar óvinsældir. Þegar í ljós kom að hann var einnig flæktur í hneyksli vegna valdníðslu, spillingar og mannréttindabrota neyddist hann til að segja af sér og boða til nýrra kosninga. Fujimori flúði land í nóvember 2000. Vinsældir hans í Perú eru þó enn umtalsverðar. Samkvæmt könnun sem gerð var 2004 hefði hann sigrað í forsetakosningum hefðu þær farið fram þá.
Forsetakosningar fóru fram 2001 og sigraði Alejandro Toledo Manrique stofnandi og leiðtogi Perú Posible (PP) stjórnmálaflokksins sem hefur 45 sæti af 120 á þinginu. Ríkisstjórn hans samanstendur af PP og Frente Independiente Moralizador (FIM). Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru Partido Aprista Peruano (APRA) og Unidad Nacional (UN).1
Toledo forseti hefur lagt áherslu á að gera stjórnsýslu landsins gegnsærri og lofað að berjast gegn fátækt og skapa milljón ný störf á fimm árum. Miklar vonir voru bundnar við Toledo, ekki hvað síst þar sem hann er fyrsti forseti Perú sem er af indíánaættum. Hann var alinn upp í fátækt en fékk styrk til náms í Bandaríkjunum, nam viðskiptafræði við Háskólann í San Francisco og stundaði doktorsnám í mannauðsstjórnun við Stanford háskóla.
Síðan Toledo tók við embætti forseta 2001 hefur hagvöxtur verið um 4% í landinu en honum hefur ekki tekist að skapa ný störf. Vinsældum hans hefur hrakað vegna þess hve umbætur í efnahags- og atvinnumálum ganga hægt fyrir sig. Að mati fréttaskýrenda má ennfremur rekja fylgishrun forsetans til stöðugra ásakana á hendur honum og fjölskyldu hans, en þau eru vænd um siðleysi, spillingu og misnotkun á almannafé.

Efnahagsmál

Helstu útflutningsafurðir Perú eru sjávarafurðir, hráolía, kaffi, sykur, baðmull og málmar svo sem kopar, sink, gull, silfur og blý. Landið er mjög háð heimsmarkaðsverði þessara afurða. Helstu viðskiptalönd eru Bandaríkin, Kína og Japan.



Einkavæðing í námu-, rafmagns- og fjarskiptaiðnaði sem hófst á tíunda áratugnum hefur gert hagkerfi Perú opnara og markaðsvæddara en áður. Aukin erlend fjárfesting og samstarf ríkisstjórnar Fujimori við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann leiddi til hagvaxtar árin 1994 til 1997 auk þess sem böndum var komið á óðaverðbólgu.


Í kjölfar veðurfarsbreytinga El Niño, kreppu á Asíumarkaði og aukinna afskipta stjórnvalda af markaðsmálum, dundi mikil efnahagskreppa yfir Perú frá 1999 til 2001. Útgerð og landbúnaður höfðu náð sér að mestu 2001 og árið 2002 var vöxtur í flestum geirum efnahagslífs landsins. Árin 2002 og 2003 var hagvöxtur 4-5%, gengið stöðugt og verðbólgan undir 2%.
Þrátt fyrir að Toledo forseti brygðist við kreppunni á hefðbundinn hátt og reyndi að laða að erlend fjárfesta var árangurinn takmarkaður. Ástæðuna má m.a. rekja til óstöðugleika í stjórnmálum innanlands og dvínandi vinsælda stjórnar forsetans. Ennfremur kom þar við sögu kröftug andstaða landsmanna við einkavæðingu.

Milliríkjamál

Perú hefur átt í tíðum erjum við nágrannaríkin Chile og Ekvador. Kókaínbraskarar stunda peningaþvott í landinu og hefur stjórnvöldum í Perú ekki auðnast að stemma stigu við þeirri glæpastarfsemi.


Allt til ársins 1996 var Perú heimsins stærsti framleiðandi kókalaufs, sem að mestu leyti er flutt til Kólumbíu, Bólivíu og Brasilíu til framleiðslu kókaíns. Talið er að um 200.000 manns vinni við ræktun kókarunna í Perú. Frá árinu 1995 hefur barátta stjórnvalda gegn eiturlyfjaframleiðslu í landinu leitt til 70% samdráttar í þessari framleiðslu.
Perú hefur átt þátt í undirbúningi að fríverslunarsamningi tólf ríkja í Suður Ameríku, en ríkin eru ásamt Perú, Bólivía, Kólumbía, Ekvador, Venesúela, Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ, Chile, Gvæana og Suriname.2 Á fundi í Cuzco í Perú 8. desember 2004 undirrituðu fulltrúar ríkjanna samning um stofnun SACN (South American Community of Nations, Comunidad Sudamericana de Naciones, CSN), sem á með tímanum (miðað er við árið 2019) að þróast og líkjast samvinnu ríkja í Evrópusambandinu. Ætlunin er m.a. að taka upp sameiginlega mynt, stjórnarskrá, löggjafarþing og vegabréf, en fyrst um sinn verður látið nægja að fella niður tolla.
Samvinnan byggir á sameiningu fríverslunarsamtakanna Mercosur og Andes bandalagsins (Comunidad Andina) sem áætlað er að verði í garð gengin árið 2007. Við það myndast 366 milljón manna markaður með rúmlega 2,6 milljarða dollara verga landsframleiðslu. Samanburð við NAFTA og ESB má sjá í töflu 1:


Heiti

Stærð

Íbúafjöldi

GDP

GDP

Fjöldi ríkja

 

km²

 

í milljónum

USD á íbúa

 

 

 

 

 USD




 

SACN

17.715.335

366.669.975

2.635.349

7.187

12

NAFTA

21.588.638

430.495.039

12.889.900

29.942

3

ESB

3.977.487

456.285.839

11.064.752

24.249

25

Tafla 1
Þrátt fyrir að samstarf ríkja í CAN hafi hafist fyrir 35 árum hefur enn ekki tekist að ná samstöðu um sameiginlega tolla. Því má gera ráð fyrir að með fjölgun aðila að nýja samstarfinu verði enn erfiðara að komast að samkomulagi, sérstaklega þar sem mörg ríkjanna flytja út sömu vörutegundir. Framtíðin leiðir í ljós hvernig þessum nýja samstarfsvettvangi mun reiða af.

Samskipti Íslands og Perú

Kjörræðismaður Íslands í Lima er Augusto Arriola.


Verðmæti innflutnings til Íslands frá Perú á tímabilinu janúar til nóvember 2004 nam 17,5 milljónum króna. Enginn útflutningur var frá Íslandi til Perú á sama tímabili.3

Heimildir
About. Peru.

http://geography.about.com/library/cia/blcperu.htm
BBC News. Country profile: Peru.

http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/americas/country_profiles/1224656.stm
BBC News. Peru strife killed 69.000.

http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/americas/3187587.stm
BBC News. Peru’s lessons from the past.

http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/americas/3604550.stm
BBC News. Profile: Alberto Fujimori.

http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/americas/3112321.stm
CIA, The World Fact Book. Peru.

http://www.cia.gov/cia/publications/factbook/geos/pe.html
Economist Intelligence Unit. Country Report Peru April 2005.

http://db.eiu.com/index.asp?layout=article&eiu_issue_id=298219229
Economist Intelligence Unit. The Future of Mercosur: A free-trade tug-of-war. (December 11th 2004).

http://db.eiu.com/index.asp?layout=article&eiu_issue_id=1847852784&eiu_article_id=1877852787
Elections around the world. Peru.

http://electionworld.org/peru.htm
Gagnasafn mbl.is.

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/
Geographia. Peru.

http://www.geographia.com/peru/
Infoplease. Peru.

http://www.infoplease.com/ipa/A0107883.html
TheFreeDictionary.com. Peru.

http://encyclopedia.thefreedictionary.com/Peru
Wikipedia, the free encyclopedia. Peru.

http://en.wikipedia.org/wiki/Peru
Wikipedia, the free encyclopedia. The Economics of Peru.

http://en.wikipedia.org/wiki/Economy_of_Peru
Wikipedia, the free encyclopedia. The Politics of Peru.

http://en.wikipedia.org/wiki/Politics_of_Peru
Wikipedia, the free encyclopedia. South American Community of Nations.

http://en.wikipedia.org/wiki/South_American_Community_of_Nations
World Facts. Facts about Peru.

http://worldfacts.us/Peru.htm

1 Fjöldi þingmanna fyrir hvern flokk er eftirfarandi: Perú Posible (PP) 47, APRA 28, Unidad Nacional 17, Frente Independiente Moralizador (FIM) 11 og aðrir 17.

2 Bólivía, Kólumbía, Perú og Venesúela eru aðilar að Andes bandalaginu (Comunidad Andina). Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ eru aðilar að Mercosur bandalaginu.

3 Heimasíða Hagstofunnar.

Yüklə 80,5 Kb.

Dostları ilə paylaş:




Verilənlər bazası müəlliflik hüququ ilə müdafiə olunur ©genderi.org 2024
rəhbərliyinə müraciət

    Ana səhifə